gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Enn verri fréttir í vændum? · Heim · Að sjá hlutina fyrir eftir á – skemmtilegt viðtal við sextugan rithöfund »

Þögnin mikla á sýningu 677 hjá Deus ex cinema

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.05 12/8/09

Starf Deus ex cinema hefur verið með hefðbundnum hætti í sumar þrátt fyrir veðurblíðuna hér sunnanlands – vikulegar sýningar á þriðjudagskvöldum og hef ég mætt á þær flestar. Í gærkvöldi sýndi Bjarni Randver Sigurvinsson hinn sérstæða spaghettí vestra Il grande silenzio eða Þögnina miklu í leikstjórn Sergio Corbucci. Spaghettí-vestrarnir eru í miklum metum hjá Bjarna og skipar þessi þar heiðurssæti.

Og víst er myndin óvenjuleg. Öllum hefðbundnum Hollywood-lögmálum er snúið á hvolf og óhætt að segja að endalokin séu óvænt og á endirinn fátt skylt við hamingjusamleg endalok klassískra Hollywood-mynda. Sumir greina í falli hetjunnar ákveðnar kristsvísanir og ekki að undra þar sem leikstjórinn sjálfur hefur talað um að aðalpersóna myndarinnar hafi að geyma vísanir til Krists. Á einum stað kemur fyrir biblíuleg tilvitnun í myndinni (”Ég er upprisan og lífið…”) en seint yrði þessi mynd þó flokkuð sem biblíuleg.

Myndin fékk ágætar undirtektir viðstaddra, m.a. fyrir flott myndskeið og frumlegheit. Sjálfur benti Bjarni á að mikilvægt væri að hafa í huga að myndin væri gerð 1968, skömmu eftir morðið á Martin Luther King. Sjá mætti tengsl þar á milli. Frelsishetjurnar eru drepnar og þjóðfélagsbyltingarnar mistakast.

Heiti myndarinnar vísar til þess að aðalsöguhetjan er mállaus. Hafði verið skorin á háls sem barn til að koma í veg fyrir vitnisburð um morð. Er morðið á foreldrum söguhetjunnar sýnt í endurliti og morðin eru mörg í þessari mynd áður en yfir lýkur og einkum í lokin. Myndin getur þó varla talist sérlega óhugnanleg og í henni er falleg ástarsena þar sem söguhetjan þögla á hlut að máli svo og falleg blökkukona, og að sögn Bjarna markaði sú sena þáttaskil í kvikmyndasögunni. Um þá senu var og sagt í gærkvöldi að hún sýndi enn og aftur réttmæti orðanna “less is more.”

Það var þétt setinn bekkurinn heima í stofunni hjá Bjarna í gærkvöldi innan um allar bækurnar og dvd-diskana en Bjarni er safnari af Guðs náð og ber notalegt heimili hans þess vitni. Mætt voru Jóhanna Magnúsdóttir aðstoðarskólastýra, Gunnar J. Gunnarsson dósent , Gunnar steingrímsson djákni, Egill B. Hreinsson prófessor, listahjónin Leifur Breiðfjörð og Sigríður Jóhannsdóttir, undirrritaður og gestgjafinn og sýningarstjórinn Bjarni Randver Sigurvinsson.

Þetta var sýning nr. 677 hjá Deus ex cinema en fyrsta myndin í klúbbnum var sýnd 4. júlí árið 2000, sællrar minningar.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-08-12/thognin-mikla-a-syningu-677-hja-deus-ex-cinema/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli