gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Þögnin mikla á sýningu 677 hjá Deus ex cinema · Heim · Hagur Selfyssinga vænkast á ný »

Að sjá hlutina fyrir eftir á – skemmtilegt viðtal við sextugan rithöfund

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.52 22/8/09

Þórarinn Eldjárn rithöfundur var að hlaupa hér framhjá glugganum rétt áðan eftir Norðurströndinni á Seltjarnarnesi. Hann er meðal þúsunda sem taka þátt í Reykjavíkurmaraþonhlaupinu í dag. Ég veitti Þórarni einkum  athygli vegna þess að ég hafði fyrr í morgun verið að lesa áhugavert og læsilegt viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við hann í Morgunblaðinu.

Þórarinn er orðhagur maður og viðtalið í Morgunblaðinu bráðskemmtilegt. Þórarni er, eins og svo mörgum rithöfundum og skáldum,  lagið að orða þá hluti vel sem margir aðrir hafa hugsað en ekki komið almennilega í orð. Þannig fannst mér hann segja vel það sem ég hef sjálfur stundum hugsað  í sambandi við umræðuna miklu eftir hrunið: “Það var ekki fyrr en eftir hrunið sem allir sáu það fyrir.” Vel að orði komist hjá þessum góða og vinsæla rithöfundi. Óneitanlega finnst manni sem býsna margir hafi gerst spámenn eftir á, sagst hafa séð allt hrunið fyrir. En ekki minnist maður þess að hafa heyrt mikið af þeim spádómum fyrr en allt var fram komið.

Þórarinn er sextugur í dag og heldur m.a. upp á afmælið með því að hlaupa hálfmaraþon. Þá kemur út ný bók frá hendi þessa vinsæla rithöfundar í dag, smásagnasafn sem hann nefnir: Alltaf sama sagan. Spurður út í trú sína segist hann vera “trúheftur.” Ég mæli með þessu áhugaverða viðtali sem er að finna á bls. 26-27 í Morgunblaðinu í dag, 22. ágúst. Bókina hef ég hugsað mér að kaupa.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-08-22/ad-sja-hlutina-fyrir-eftir-a/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli