gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Að sjá hlutina fyrir eftir á – skemmtilegt viðtal við sextugan rithöfund · Heim · Frábær stemmning í gærkvöldi – Selfoss í úrvalsdeild! »

Hagur Selfyssinga vænkast á ný

Gunnlaugur A. Jónsson @ 14.35 22/8/09

Það var ánægjulegt að skreppa austur fyrir fjall í gærkvöldi og sjá enn einn leik knattspyrnuliðs Selfyssinga í 1. deildinni. Nokkur skjálfti virtist kominn í Selfyssinga eftir heldur dapurt gengi að undanförnu þar sem gott forskot þeirra í deildinni var komið niður í eitt stig. En í gærkvöldi vannst góður 3-1 sigur á ágætu liði Leiknis úr Reykjavík.

 Það jók á ánægju heimamanna þegar fréttist að helstu keppinautarnir Haukar úr Hafnarfirði töpuðu nokkuð óvænt 0-3 fyrir ÍR. Selfossliðið var því komið með 4 stiga forystu eftir leiki gærkvöldsins og útlitið gott með að Selfyssingum takist í fyrsta sinn í sögunni að tryggja sér sæti í efstu deild. Menn minnast þess enn hvernig Selfoss missti niður vænlega stöðu í lokaumferðunum í fyrra. En stöðugleikinn virðist meiri í liðinu núna og nokkrir af yngstu og efnilegustu leikmönnum liðsins eru reynslunni ríkari og hafa greinilega bætt sig.

Selfyssingar byrjuðu með krafti og skoruðu gott mark eftir 9 mínútur og var Hjörtur Hjartarson þar að verki. Leiknismenn voru þó búnir að jafna eftir 5 mín. og eftir það virtist jafnræði með liðunum lengi vel. Selfoss fékk þó nokkur góð tækifæri fyrir hlé sem ekki nýttust.

Það var ekki fyrr en á síðustu 15 mínútum leiksins sem Selfyssingar gerðu út um leikinn. Mörkin gerðu Hjörtur Hjartarson og Guðmundur Þórarinsson, unglingalandsliðsmaðurinn efnilegi. Mjög glæsilegt mark, boltinn tekinn á lofti með viðstöðulausu vinstri fótar skoti, óverjandi. Þarna er á ferðinni leikmaður sem mikils má vænta af í framtíðinni. Ég vona bara að Selfyssingum takist að halda honum í herbúðum sínum enn um hríð. Ekki mun af veita rætist draumurinn langþráði um sæti í útvalsdeildinni.

Það var fínt veður á Selfossi í gær og sá ég ekki eftir því að hafa skotist austur fyrir fjall. Útsýnið fallegt á leiðinni, ekki síst af Kambabrún. Suðurlandið baðað í sól og blíðu. Einhver nostalgísk tilfinning fór um mig við þessa fallegu sýn.

Ég var svo í ágætum félagsskap á leiknum og hitti í leikhléi ýmsa fleiri gamla og góða félaga og vini frá bernskuárum mínum á Selfossi. Stefni að því að mæta á a.m.k. þá heimaleiki sem Selfoss á eftir. Er farinn að trúa því að þetta gangi upp hjá Selfyssingum í ár, en vissulega er ekkert öruggt, erfiðir útileikir gegn Haukum og Fjarðabyggð.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-08-22/hagur-selfyssinga-vaenkast-a-ny/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli