gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Hagur Selfyssinga vænkast á ný · Heim · Jesaja annar og kreppan »

Frábær stemmning í gærkvöldi – Selfoss í úrvalsdeild!

Gunnlaugur A. Jónsson @ 21.39 5/9/09

Ekki sá ég eftir því að hafa haldið enn eina ferðina austur fyrir fjall í gærkvöldi. Komið var að úrslitastund fyrir léttleikandi fótboltalið Selfyssinga. Möguleiki á að tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í sögu knattspyrnu á Selfossi. Ekki vildi ég missa af þeim tímamótum og sigurinn vannst með glæsibrag.

Ég sagði familíunni - en  flestir hristu bara hausinn yfir skilaboðunum – að ég kæmi of seint í fjölskylduboðið, seint í desertinn. Ég ætlaði nefnilega ekki að missa af því að Selfyssingar tryggðu sér sæti í efstu deildinni.

Ekki lét ég undrun ættingjanna og furðu á mig fá og hélt úr bænum. Mikil umferð á föstudagssíðdegi í borginni og því var það umtalsverður léttir að komast út úr bænum nokkuð fyrir kl. sex. Mér finnst ég alltaf hálfnaður á leiðinni til Selfoss er ég kem að Rauðvatni, ekki síður en Móse í óbyggðinni forðum.

Það leyndi sér ekki að mikið var um að vera er ég renndi í hlað við glæsilegt íþróttasvæði Selfyssinga kl. 18:25. Fólk dreif að úr öllum áttum. Ég komst þó fljótt inn á áhorfendasvæðin, – út á stuðningsmannakortið góða og hitti þar fyrir gamla félaga og vini.  Bárður Guðmundarson, æskuvinur minn, lét vel í sér heyra að venju og að þessu sinni var mættur með honum Marteinn Sigurgeirsson, okkar gamli þjálfari og æskulýðsleiðtogi. Sömuleiðis Birgir Ástráðsson, annar æskufélagi út fótboltanum. Það kom líka á daginn að að voru margir brottflutnir Selfyssingar mættir á völlinn til að fagna því sem flestir bjuggust við. Stuðningsmannagrúppan Skjálfti var fjölmennari og hágværari en á fyrri leikjum í sumar. Einhverjir höfðu greinilega fengið sér bjór í tilefni dagsins.

En leikurinn byrjaði ekki nógu vel og Afturelding úr Mosfellsbæ hafði skorað 0-1 áður en Selfyssingar náðu að skapa sér marktækifæri. Bárður bölvaði, ég þagði. Ætluðu Selfyssingar að klúðra þessu á lokasprettinum, eins og í fyrrasumar? Leikurinn skipti Mosfellinga máli. Tap myndi þýða fall í 2. deild, en þetta fannst okkur óþarfa gestrisni þó að 2 umferðir væru enn eftir og allir möguleikar fyrir Selfyssinga að tryggja sér sætið. En vont var þurfa að treysta á sigra gegn Haukum og gamla stórveldi Skagamanna í lokaumferðunum.

Okkur menn hresstust fljótlega og það sýndi sig enn á ný hvílíkt snilldarbragð að var hjá nafna mínum (Gunnlaugi Jónssyni fyrrum Skagamanni og síðar KR-ingi),  þjálfara Selfyssinga, að fá markaskorarann kunna Hjört Hjartarson til liðs við Selfyssinga um mitt sumar. Hjörtur jafnaði leikinn með góðu marki og tveimur mínútum síðar skoraði Sævar Þór Gíslason glæsilegt mark, 2-1. Mikil fagnaðarlæti og létt yfir heimamönnum er blásið var til hálfleiks.

Í leikhléi var í stuðningsmannaklúbbnum boðið upp á kaffi, kleinur og kanelsnúða. Björn rakari Gíslason var í hátíðarskapi er hann kom að borði okkar félaganna, sagðist reikna með 5-1 sigri. Ég bætti um betur og sagðist hafa fulla trú á 6-1. Veit ekki hvort nokkur getur staðfest þann spádóm minn en þannig fór leikurinn að lokum og hafði Hjörtur þá skorað 3 mörk, Sævar Þór 2 og Arelíus Marteinsson sjötta markið. Matti (Marteinn) þjálfari sagðist ekki kannast við að sá ágæti leikmaður væri sonur hans, þrátt fyrir föðurnafnið,  en öllum leist okkur vel á piltinn. Á hann  fullt erindi í efstu deild eins og félagar hans.

Selfossliðið er léttleikandi og vel skipulagt lið sem gaman verður að fylgjast með næsta sumar í keppni við stórliðin á höfuðborgarsvæðinu. Og það ánægjulegasta við Selfossliðið er að það er nær eingöngu skipað heimamönnum, eins og tíðkastðist í gamla daga. Leikmönnnum sem alist hafa upp hjá félaginu. Hjörtur Hjartarson er nánast undantekningin sem sannar regluna.

Flott hjá Selfyssingum. Gleði og fagnaðarlæti fram á nótt, frétti ég. En þá var ég löngu kominn til höfuðborgarinnar og mættur í desertinn hjá familíunni sem er óvenju fjölmenn hér á landi um þessar mundir vegna brúðkaups sonar míns um s.l. helgi. Hann missti raunar af veislunni í gær. Var erlendis í viðskiptaerindum á vegum fyrirtækisins sem hann starfar fyrir.

Og svo horfði ég á með hálfum hug á leik Íslands og Norðmanna í sjónvarpinu áðan. Jafntefli varð 1-1 en Íslendingur léku betur en um langt árabil og hefðu átt að vinna 4-1 miðað við marktækifæri. Mér fannst sem vantaði Selfyssingana Sævar Þór og Hjört Hjartason. Þeir hefðu örugglega ekki klúðrað þeim fjölmörgu dauðafærum sem fóru forgörðum hjá íslenska liðinu í kvöld. En leikurinn var betri en ég hafði þorað að vona.

Til hamingu Selfoss!  — En nú þarf víst að byggja stúku við fótboltavöllinn til að uppfylla skilyrði úrvalsdeildarinnar og hvar skyldu fást peningar í slíkar framkvæmdir?

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-09-05/frabaer-stemmning-i-gaerkvoldi-selfoss-i-urvalsdeild/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Sveinbjörn Þorkelsson @ 7/9/2009 22.35

Til hamingju Gunnlaugur!
Þetta er aldeilis hraðferð á þínum mönnum, en þeir voru reyndar glettilega nálægt því að fara upp um deild í fyrra. Glæsilegt! Því miður á Þróttur þess ekki kost að leika við þína menn næsta sumar, af augljósum ástæðum, fallnir. Svona er boltinn. Þetta var góð sending sem þið Selfyssingar fenguð frá Þrótti, hann Hjört Hjartarson (og merkilegt að við skyldum ekki hafa not fyrir hann, en líklega hefur það með annað að gera en fótbolta. Annað hvort peninga eða misklíð í röðum Þróttara) Til hamingju aftur!

Glúmur Gylfason @ 9/9/2009 22.10

“Ég fell í auðmýkt flatur niður”
Glúmur


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli