gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Jesaja annar og kreppan · Heim · Afastelpur í Vesturheimi heilsa upp á kisurnar »

Glæstur sigur Selfyssinga í 1. deild

Gunnlaugur A. Jónsson @ 13.55 20/9/09

Vana mínum trúr hélt ég austur fyrir fjall í gær til að sjá síðasta leik sumarsins hjá sigursælu liði Selfyssinga í 1. deildinni í fótbolta. Haukar úr Hafnarfirði gátu náð Selfossi að stigum ef Selfoss tapaði sínum leik, gegn gamla stórveldi Skagamanna.

Ég var seinn af stað úr rigningunni á  Seltjarnarnesinu en ferðin út úr borginni og yfir heiðina gekk vel og þegar á Kambabrún var komið batnaði veðrið og ég sá að Selfossbær var baðaður í sólskini. Það vissi á  gott. Mér hefur fundist gott veður henta léttleikandi liði Selfyssinga vel.  Leikurinn var nýhafinn er ég mætti á Selfossvöll en þar var fjölmenni eins og á leiknum gegn Aftureldingu á dögunum, a.m.k. 800 manns. Meðal áhorfenda sá ég fyrrum alþingismenn Selfyssinga þá Guðna Ágústsson og Kjartan Ólafsson svo og hinn mikla og aldna íþróttafrömuð Hafstein Þorvaldsson. Björn rakari Gíslason var að sjálfsögðu á staðnum einnig og duldist ekki.

Ég er vanur að heyra í félaga mínum Bárði Guðmundarsyni á vellinum og geng einfaldlega á hljóðið til að ná selskap hans! En hann var óvenjulega þögull að þessu sinni. Skýringuna fékk ég í hálfleik. Hann var staddur í Skotlandi að spila golf! Fannst mér það skrýtin forgangsröðun hjá pilti á þessum merka degi í sögu Selfoss!

Lét ég því nægja að koma mér fyrir þar sem vel sást inn á völlinn án sérstaks félagsskapar gamalla kunningja og vina. Þekki líka orðið svo vel til liðsins að ég þarf ekki leiðsögn heimamanna.

Leikurinn var heldur daufur í fyrri hálfleik og fátt um færi en svo fór að Skagamenn, sem hafa verið á góðri siglingu að undanförnu eftir dapurt gengi lengst af sumars, skoruðu mark skömmu fyrir leikhlé eftir mistök í vörn Selfyssinga.

Skagamenn hafa haldið hreinu í nokkrum síðustu leikjum sínum og því var ekki sérstök ástæða til bjartsýni. Selfossliðið virkaði líka með daufasta móti  ef undan er skilinn Einar Ottó Antonsson sem lék mjög vel og barðist af miklum krafti.

Kannski sat þjálfaramissirinn enn í Selfyssingum og þau leiðindi sem urðu í tengslum við brotthvarf þjálfarans, nafna míns, Gunnlaugs Jónssonar sem náð hefur svo góðum árangri með Selfossliðið. Og var leitt að hann skyldi ekki vera með liðinu allt til loka þó svo að enginn álasi honum fyrir að hafa tekið gylliboði Valsmanna, en tímasetningin á vistaskiptunum var klaufaleg.  

Í leikhléi hitti ég einn æskufélaga minn úr fótboltanum, Kristinn Grímsson og vísaði hann mér á fleiri félaga mína úr fræknum 5. flokki Selfyssinga einhvern tíma á öldinni sem leið. Var þar fremstur í flokki Sumarliði Guðbjartsson (Dengsi) einhver besti knattspyrnumaður sem Selfoss hefur alið, en einnig frændi hans Óskar Marelsson, svo og Sigurður Reynir Óttarsson, Magnús Jakobsson og Örn Grétarsson. Það var óneitanlega skemmtilegra að fylgjast með leiknum í þessum góða félagsskap. En það var bið á því að leikur Selfyssinga batnaði að ráði.

Ástæðulaust var þó að örvænta því að reynsla sumarsins sýnir að Selfossliðið er í mjög góðri úthaldsþjálfun og spilar oft best síðustu 15-20 mínútur leiksins. Svo fór einnig nú. Innkoma Jóns Daða Böðvarssonar unglingalandsliðsmannsins efnilega, Arilíusar Marteinssonar og síðast en ekki síst Jóns Guðbrandssonar lífgaði líka mikið upp á leik liðsins. Jöfunarmark kom úr vítaspyrnu á 66. mínútu og eftir það áttu Selfyssingar leikinn, vel hvattir af fjölmörgum áhorfendum. 

Markaskorarinn mikli Sævar Þór Gíslason náði svo forystunni fyrir heimamenn á 79. mínútu með 19. marki sínu í sumar, frábærlega vel gert. Sannarlega er hann enn í fullu fjöri þó margir hafi lagt skóna á hilluna á hans aldri og gott að vita til þess að hann ætli að spila áfram næsta sumar. Og Jón Guðbrandsson skoraði tvö mörk á síðustu sjö mínútum leiksins, staðan orðin 4-1 áður en Skagamenn minnkuðu muninn í 4-2 úr vítaspyrnu sem markvörður Selfyssinga færði þeim á silfurfati – raunar eftir að brotið hafði verið á honum áður.

Mikil gleði braust út í leikslok á Selfossi, langþráðu takmarki náð. Selfoss komið í efsta deild fótboltans í fyrsta sinn. Liðið er mjög vel að því komið. Leikur mjög skemmtilega og sókndjarfa knattspyrnu þegar því tekst best upp en dettur þess á milli niður í meðalmennsku.

Spennandi verður að fylgjast með liðinu í úrvalsdeildinni næsta sumar. Ég er alveg ósammála móðgandi ummælum eins knattspyrnusérfræðings sjónvarpsins sem hélt því fram að Selfossliðið þyrfti einfaldlega nýja menn í allar stöður ef það ætti að eiga einhverja möguleika að halda sæti sínu í efstu deild næsta sumar. (Raunar hefur umræddur álitsgjafi dregið úr ummælum sínum síðar).

Ég held einmitt að styrkleiki Selfyssinga felist í mjög mikilli samheldni og að leikmenn hafa þekkst lengi, eru nánast allir aldir upp hjá knattspyrnufélagi Selfoss og hjartað slær því með félaginu. Það breytir því ekki að vel mætti hugsa sér að styrkja liðið með eins og þremur leikmönnum. En sennilega hafa Selfyssingar ekki yfir miklum fjármunum að spila og þurfa að auki að reisa áhorfendastúku fyrir næsta sumar, skv. skilmálum KSÍ. Það er því e.t.v. meiri hætta á að liðið missi einhverja af sínum efnilegustu knattspyrnumönnum frá sér. Vonandi fer svo ekki.

Selfyssingar voru í hátíðarskapi er ég yfirgaf bæinn í blíðunni um miðjan dag í gær. Sá skuggi var þó yfir að í gærmorgun hafði kunnur Selfyssingur og mikill stuðningsmaður knattspyrnunnar á staðnum, Sigurður Karlsson, verið jarðsunginn í mjög fjölmennri útför þar sem knattspyrnuliðið stóð heiðursvörð. Mátti heita að leikmenn hafi nánast komið beint úr jarðarförinni í leikinn. Var einnar mínútu þögn áður en leikurinn hófst í heiðursskyni við Sigurð Karlsson en leikmenn heiðruðu kannski minningu hans best með hinum glæsta sigri.

Góður endir á arangursríku sumri knattspyrnuliðs Selfyssinga og markatala liðsins í 1. deildinni í sumar talar sínu máli, 53 mörk gegn 26 og 47 stig, þremur stigum meira en Haukarnir þeirra helstu keppinautar hlutu.

Til hamingju Selfoss!

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-09-20/glaestur-sigur-selfyssinga-i-1-deild/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli