gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Glæstur sigur Selfyssinga í 1. deild · Heim · Snjóaði undir stefnuræðu – Sigmundur Davíð bestur »

Afastelpur í Vesturheimi heilsa upp á kisurnar

Gunnlaugur A. Jónsson @ 08.25 22/9/09

Það urðu fagnaðarfundi á heimilinu í gærkvöldi þegar afastelpurnar tvær í New York, Elísabet Una 7 ára og Kristrún 4 ára, birtust á tölvuskjánum  hér og ekki varð ánægja þeirra minni er þær sáu “gegnum Skype” að kisurnar þeirra tvær voru uppi á skrifborðinu hjá afa og ömmu og birtust þeim ljóslifandi í nærmynd.

Afastelpur fluttust vestur um haf í byrjun september ásamt foreldrum sínum þar sem pabbi þeirra hefur þegar hafið nám við hinn virta háskóla New York University og Elísabet Una hefur þegar hafið nám á enskri tungu í skóla handan götunnar og bætir sig í enskunni dag frá degi og er að sögn þegar búin að eignast vinkonur.

Afinn tók að sér að sjá um kisurnar þeirra, Ronju og Línu sem  nefndar eru eftir tveimur af uppáhaldssögupersónunum úr bókum Astrid Lindgren. Hafa kisurnar undað sér vel hér í Bollagörðunum á Seltjarnarnesi þó ekki efist ég um að þær sakni vinkvenna sinna Elísabetar og Kristrúnar sem reiknað er með að búi í heimsborginni í tvö ár, áður en aftur verður snúið heim til Íslands, ef áætlanir og áform standast.

Mamma þeim lætur nægja að sjá um heimilið í vetur og passa Kristrúnu en ætlar svo einnig í framhaldsnám í lögfræðinni (refsirétti) næsta vetur. Er það mjög dýrmætt fyrir litlu dömurnar að hafa mömmu sína heima meðan þær eru að aðlagast í framandi veröld.

Eftir heimsókn mína á Íslendingaslóðir í  Manítópa og Norður-Dakóta fyrir fáeinum árum hef ég í auknum mæli verið að lesa mér til um sögu íslensku landnemanna vestra á árunum upp úr 1874. Það voru erfiðir tímar en þráin eftir því að halda tengslum við ættingja heima á Fróni var sterk. Sú þrá birtist  í sendibréfum sem gátu jafnvel verið mánuði á leiðinni. Þar var alltaf verið að kalla eftir ljósmyndum, jafnvel af börnum úr fjölskyldunni sem orðið hafði að skilja eftir. Ekki þarf að lýsa því hve slíkur aðskilnaður hefur verið  erfiður.

Nú eru afastelpur sem sé fluttar til Vesturheims tímabundið, af þeim hef ég haft daglegar fréttir gegnum tölvupóst síðan þær fóru og svo birtust þær ljóslifandi ásamt mömmu sinni á tölvuskjánum undir miðnætti í gærkvöldi og heilsuðu upp á kisurnar sínar og skríktu af kátínu er þær sáu þær.

Þó að harðnað hafi á dalnum hér á Íslandi um skeið þá mættum við minnast ýmissa harðindatímabila í sögu þjóðarinnar. Harðindin sem leiddu til landflóttans mikla til vesturheims á árunum 1875 til 1900 eru meðal þeirra sem jafnan koma í hugann. Mér kom samanburðurinn í hug og leiddi hugann að því hve tímarnir eru ólíkir þegar afastelpurnar birtust á tölvuskjánum í gærkvöldi eftir að Nonni móðurbróðir  þeirra (nýkvæntur og sæll) hafði sett upp Skype-útbúnað á tölvunni.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-09-22/afastelpur-i-vesturheimi-heilsa-upp-a-kisurnar/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli