gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Snjóaði undir stefnuræðu – Sigmundur Davíð bestur · Heim · “Driving Miss Daisy” í minningu Bambi »

Kiljan -Með dauflegra móti en góð samt

Gunnlaugur A. Jónsson @ 23.33 7/10/09

Það er til marks um hve góður bókmenntaþátturinn Kiljan er að mér fannst hann með dauflegra móti í kvöld en býsna góður samt. Ég læt þennan þátt Egils Helgasonar helst aldrei framhjá mér fara, en Silfur Egils er ég alveg hættur að horfa á. Tók ekki neina ákvörðun um það, heldur gerðist það bara. Hin póltíska umræða er ekki til þess fallin að létta manni lund.

En Kiljan heldur áfram að höfða til mín og er oft eins og ljós í myrkri, ekki síst þegar fréttirnar af þjóðfélagsmálunum eru jafn bölsýnar og undanfarið ár.

Kolbrún Bergþórsdóttir og Páll Baldvinsson finnst mér mynda skemmtilegt dúó og Egill sjálfur er svo vel lesinn bókmenntamaður að hann á auðvelt með að tryggja að samtalið renni eðlilega áfram.

Í kvöld fannst mér einna áhugaverðast að hlusta á Margréti Sigfúsdóttur ræða um hina klassísku matreiðslubók Margrétar Sigurðardóttur (bók sem ég gef konu minni á dögunum, en var ekki síður að gefa sjálfum mér). Bók sem með réttu hefur verið nefnd matarbiblía Íslendinga. Vissulega úrelt um margt en gagnleg, fróðleg og jafnvel skemmtileg á köflum, og skemmtilegt að fræðast um höfund hennar.

Einar Kárason sagði og skemmtilega frá Knut Hamsum (1859-1952) og sagði efnislega að fólk hefði ekki alltaf áttað sig á hvað karlinn væri gamall. “Smám saman hætta slíkir menn að skipta um skoðun,” sagði Einar og bætti við að sjónarmið Hamsums hefðu að verulegu leyti mótast á síðari hluta 19. aldar.

En kannski er Bragi Kristjónsson það albesta við þennan þátt. Hann var raunar ekki með nein sérstök gullkorn í kvöld og ekki alveg upp á sitt besta, en segir samt alltaf svo skemmtilega frá og kann slík órgrynni af sögum að hann er alveg ómissandi í þessum þætti. Hrein snilld hjá Agli  að hafa hann sem fastagest í þættinum.

Ef ég ætti að svara því hver væri uppáhaldsþáttur minn í sjónvarpinu þá held ég að ekki stæði á svari: Kiljan.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-10-07/kiljan-med-dauflegra-moti-en-god-samt/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli