gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Kiljan -Með dauflegra móti en góð samt · Heim · Seltjarnarnesið – visælt útivistarsvæði »

“Driving Miss Daisy” í minningu Bambi

Gunnlaugur A. Jónsson @ 13.39 10/10/09

Óskarsverðlaunamyndin “Driving Miss Daisy” frá árinu 1989 hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Hugljúf mynd þar sem söguþráðurinn gæti virst svo lítill að ekki tæki því að gera mynd um hann. Annað kemur á daginn og er leikur þeirra Morgan Freemans og Jessicu Tandy hreint út sagt stórkostlegur og eigu þau mestan þátt í hve myndin er góð.

Ég bauð eiginkonu minni upp á að horfa á þessa mynd í gærkvöldi, vildi gera það í minningu Bambi Bixon vinkonu okkar sem lést fyrir skömmu (1938-2009) en við Bambi höfðum stundum rætt um myndina á ökuferðum okkar hér á landi. Það kom í ljós að eiginkona mín hafði aldrei horft á myndina en heillaðist af henni.

Myndin gerist í Atlanta í Georgíu og nær yfir 25 ára tímabil, 1948 til 1973. Hún fjallar um samskipti gamallar gyðingakonu, Miss Daisy (Jessica Tandy) og blökkumannsins Hoke Colburn (Morgan Freeman) sem er ráðinn bílstjóri hennar í óþökk hennar.  

Áður en yfir lýkur hefur samband þeirra þróast út í náið vináttusamband. Myndin er flott aldarfarslýsing þar sem kynþáttafordómar koma mjög við sögu.

Trúarlegt efni er ekki fyrirferðamikið í myndinni en kemur þó við sögu, svo sem fyrirlitning Miss Daisy á jólahaldi, sem hún tekur þó nauðug þátt í. Við sjáum hana líka heimsækja sýnagógu þar sem farið er með þekktustu bæn gyðingdóms á hebresku (”sjema jisrael…” – heyr Ísrael – 5Mós 6:4 o.áfr.)

Snemma í myndinni þegar Miss Daisy hefur loks fallist á að þiggja far með Hoke í verslunina Piggly Wiggly segir hann syni hennar hróðugur frá því að þetta hafi tekist á sex dögum, “jafnlengi og það tók Guð að skapa heiminn.”

Þáttaskil í myndinni verða er þau Hoke og Miss Daisy heimsækja gyðinglegan grafreit saman og hún kemst að því að ekki er hægt að nota bílstjórann  til að finna ákveðinn legstein vegna þess að hann kann ekki að lesa. Þar skynjar Miss Daisy að hún getur líka hjálpað honum, og er ekki bara upp á aðstoð hans komin.

Lengsta ökuferð þeirra saman er til borgarinnar Mobile í Alabama og í þeirri leið áttar Miss Daisy sig betur en áður á þeim kynþáttafordómum sem eru ríkjandi þar um slóðir. Lögreglumenn sem stöðva þau láta slíka fordóma t.d. berlega í ljós. Sjálf er Miss Daisy  fjarri því að vera laus við slíka fordóma og getur t.d. illa hugsað sér að taka Hoke með sér á samkomu hjá blökkumannaleiðtoganum mikla, dr. Martin Luther King.

Ekki sá ég eftir að rifja upp kynni mín af þessari fallegu og vel gerðu mynd sem er einkar hugljúf og minnistæð. Sýnir að það er hægt að gera áhugaverðar myndir þar sem gamalt fólk er í aðalhlutverkum.

Jessica Tandy fékk Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í myndinni, elsta konan sem fengið hefur Óksarshlutverk fyrir leik í aðalhlutverki en hún var áttræð er hún fór með hlutverk Miss Daisy.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-10-10/driving-miss-daisy-i-minningu-bambi/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli