gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« “Driving Miss Daisy” í minningu Bambi · Heim · KK með persónulega trúarjátningu »

Seltjarnarnesið – visælt útivistarsvæði

Gunnlaugur A. Jónsson @ 10.02 11/10/09

Mér virðist sem vinsældir Seltjarnarnessins sem útivistarsvæðis séu sífellt að aukast. Á morgungöngu minni áðan, út að Snoppu og Gróttu og síðan eftir Kotagranda og út  að Suðurnesi og síðan fram með Bakkavíkinni, urðu á vegi mínum ekki færri en fjórir menn klifjaðir stórum ljósmyndavélum auk allmargs fólks í hefðbundinni morgungöngu, að ógleymdum trimmurunum. Og golfaranir mæta til leiks nánast alla daga ársins á golfvellinum úti í Suðurnesi. 

Nokkrir þeir sem á vegi mínum urðu svöruðu kveðju minni á útlendum málum. Eitthvað virðist enn af ferðamönnum hér þó að komið sé fram í október. Sól skein í heiði  og framkallaði þá litadýrð sem ljósmyndarnir hafa vafalaust einkum verið á höttunum á eftir. Og sem ég skrifa þessar línur í skrifstofu minni sem veit út að Esju sé ég að trimmurunum fer fjölgandi.

Niðri á Snoppu tók ég eftir að megnið af trönunum þar voru fallnar niður, hafa væntanlega fokið um koll í rokinu nú í vikulokin sem varð býsna mikið þó mikið hafi vantað á við Básendaveðri fræga 1799 þegar kirkjan á Seltjarnarnesi splundraðist. Hún stóð austan við Nes við Seltjörn og þar er lítill minnisvarði um hana sem Rótarýklúbbur Seltjarnarness lét reisa í tilefni af kristnitökuafmælinu árið 2000, en þá var forseti klúbbsins  Guðmundur Ásgeirsson, mikill röskleikamaður.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-10-11/seltjarnarnesid-visaelt-utivistarsvaedi/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli