gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Seltjarnarnesið – visælt útivistarsvæði · Heim · Sköpun eða aðskilnaður? Fjölmiðlar ræða sköpunarsöguna »

KK með persónulega trúarjátningu

Gunnlaugur A. Jónsson @ 10.25 12/10/09

Tónlistarmaðurinn kunni KK flutti persónulega trúarjátningu sína fyrir fullri Seltjarnarneskirkju í guðsþjónustu þar kl. 11 í gær. Vafalaust hefur koma KK í kirkjuna átt mestan þátt í hinni miklu aðsókn, en guðsþjónustan var liður í forvarnarátaki á vegum bæjarfélagsins.

  Kirkjusókn er allmennt býsna góð yfir vetrartímann á Seltjarnarnesi en oft lítil á sumrin. En óvenjulegt er að það sé troðfullt í venjulegri sunnudagsmessu, og vissulega má segja að þetta hafi ekki verið venjuleg messa þó að allflestir hinna hefðbundnu messuliða hafi verið á sínum stað. Sjálfur varð ég þess heiðurs aðnjótandi að lesa ritningarlestur, úr 5 Mósebók 10. kafla v. 12-14.

  KK lék nokkur lög sín í messunni og sum þeirra, einkum hið fyrsta, mjög á trúarlegum nótum. Falleg lög með trúarlegum boðskap. Hann tók svo til máls og sagði þá frá persónulegri trú sinni, sem segja má að hafi verið eins konar útlegging á 1. boðorðinu: “Þú skalt ekki aðra guði hafa…”

  KK sagði að lengi hafi hans eigið “egó” verið hans guð og hann hafi villst af leið, en nú væri trúin kjölfestan í lífi hans og hann byrjaði hvern dag á bæn. Hann kom einnig dálítið inn á þjóðfélagsmál.

  Á námsárum mínum í Svíþjóð var KK um skeið nágranni minn í Lundi og var mikill samgangur milli barna okkar, dætur okkar t.d. bekkjarsystur. En við, feður barnanna, kynntumst aldrei mikið. KK var þó þægilegur og viðfelldin nágranni og fjölskylda hans öll hið elskulegasta fólk.

  Þannig að það var ánægjulegt að hitta hann og Þórunni konu hans og heilsa upp á þau í kaffinu í safnaðarheimilinu að messu lokinni, spyrja frétta af börnum þeirra.

  Kl. 18 í gær voru svo tónleikar í kirkjunni – en þá var ég úti í göngutúr – og var þá troðfull kirkja enn á ný. Þannig að Seltjarnarneskirkja hefur verið vel nýtt í gær – er raunar mesta og besta samkomuhúsið í Seltjarnarnesi.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-10-12/kk-med-pesonulega-trjuarjatningu/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli