gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Sköpun eða aðskilnaður? Fjölmiðlar ræða sköpunarsöguna · Heim · Á ráðstefnu í heimabæ Wellhausens »

700. sýning Deus ex cinema

Gunnlaugur A. Jónsson @ 06.59 27/10/09

Það var afmælissýning hjá Deus ex cinema síðastliðið laugardagskvöld, 700. sýningin frá stofnun klúbbsins. Sýnd var franska myndin Les quatre cents coup/ The 400 Blows  í leikstjórn François Truffaut: 1959. Félagsmenn fengu að velja úr sjö myndum á þessari hátíðarsýningu, sjö félagar voru mættir til leiks á sjöunda kvöldi vikunnar.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan  Deus ex cinema var stofnað 4. júlí árið 2000, raunar hér á heimili mínu, Bollagörðum 61, en þá var félagsskapurinn ekki kominn með nafn. Það er Ottó Geir Borg, kvikmyndagerðarmaður og einn stofnfélaganna, sem á heiðurinn að nafninu.

Við kosningum um hvað mynd skyldi sýna náði mynd Truffauts kosningu strax í fyrstu umferð. Skaði var að Truffaut-sérfræðingur klúbbsins, Oddný Sen kvikmyndafræðingur, gat ekki mætt á sýninguna, lá heima í flensu. En Bjarni Randver Sigurvinsson gerði að venju grein fyrir ýmis konar tölfræði á hátíðarsýningu, hvaða leikstjórar hafa oftast verið sýndir o.s.frv. Það er Pólverjinn Kieslowski sem enn vermir efsta sætið hjá félagsmönnum.

Myndin Les quatre cents coup vakti mikla athygli á sínum tíma (1959) og vann m.a. til verðlauna í Cannes og er gjarnan sögð marka upphaf frönsku nýbylgjunnar í franskri kvikmyndagerð og hafa haft mikil áhrif í gerð sjálfsævisögulegra mynda. En myndin byggir á bernskuárum Truffauts, sem hafa um margt verið erfið ef marka má myndina. En aðal sögupersónan, tólf ára drengur, sem mætir margs konar mótlæti, jafnt í skóla og heimili, leitar snemma á náðir kvikmyndanna.  Ég ætla ekki að rekja efni myndarinnar hér, en sýningargestir voru ánægðir með myndina og staðráðnir að taka fleiri myndir Truffauts til skoðunar og umfjöllunar á næstunni. Það kom okkur eiginlega á óvart að tölfræði Bjarna skyldi upplýsa að við hefðum aðeins tekið fyrir tvær af kvikmyndum Truffauts til þessa meðal þeirra 700 mynda sem skoðaðar verða.

Sýnt var á heimili hinna listrænu hjóna Leifs Breiðfjörð og Sigríðar Jóhannsdótturá Laufásveginum, en þau hjónin hafa  undanfarin ár verið meðal virkustu félaga í Dec. Auk þeirru voru mætt hjónin sr. Bjarni Þór Bjarnason og sr. María Ágústsdóttir, Bjarni Randver Sigurvinsson doktorsnemi, dr. Gunnar J. Gunnarsson dósent og undirritaður.

Pantaðar voru pizzur í tilefni dagsins og auk þess bauð Sigríður upp á fínan ávaxtarétt og ís í hléi. Ánægjuleg kvöldstund í góðum félagsskap.

Sýning nr. 701 verður í kvöld á heimili mínu og þá mun sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir sýna myndina “Promets-moi” (Lofaðu mér) eftir leikstjórann kunna Emir Kusturica.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-10-27/700-syning-deus-ex-cinema/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli