gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« 700. sýning Deus ex cinema · Heim · Spurs fór á kostum og skoraði níu mörk! »

Á ráðstefnu í heimabæ Wellhausens

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.09 5/11/09

Á dögunum (18.-21. okt.) varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að taka þátt í ráðstefnu í G.t.-fræðum í Göttingen í Þýskalandi. Háskólabærinn Göttingen er hátt skrifaður innan G.t.-fræðanna, einkum vegna þess að þar dvaldi og starfaði á sínum tíma Julius Wellhausen (1844-1918) sem löngum hefur verið talinn upphafsmaður nútíma viðhorfa í rannsóknum Gamla testamentisins. Allar götur síðan hefur það þótt mikill heiður að gegna prófessorsembætti í G.t.-fræðum við þennan merka háskóla.

Ráðstefnan sem hér um ræðir var á vegum OTSEM sem er samstarfsnet gamlatestamentisfræðinga við flestar guðfræðideildir á Norðurlöndum og Göttingen í Þýskalandi. Og að þessu sinni bættist ekki ónýtur liðsauki við, þ.e. Gt-fræðingar frá einum þekktasta háskóla heimsins: Oxford.

Þetta voru ánægjulegir og gefandi dagar og strax við komuna fengum við að hlýða á erindi Rudolfs Smend (f. 1932), helsta sérfræðings heimsins í rannsóknasögu Gamla testamentisins. Hann talaði um sjálfan Julius Wellhausen, en þó undarlegt megi virðast hefur ævisaga Wellhausens aldrei verið skrifuð. En Smend mun um langt árabil, í áratugi væri nær sanni, hafa unnið að slíkri bók.

Ekki hef ég tíma til að segja ítarlega frá ráðstefnunni hér en OTSEM-samtökin byggjast á samvinnu um doktorsnám í Gt-fræðum. Það eru enda doktorsnemar sem flytja langflest erindin á þessum ráðstefnum, svo og nýdoktorar. Prófessorar og aðrir kennarar frá guðfræðideildinum sem hlut eiga að máli leiða hins vegar gagnrýnin viðbrögð við erindunum og taka virkan þátt í umræðum. Sjálfur flutt ég andmæli við erindi eins nýdoktors frá Oxford.

Við vorum þrír sem sóttum þessa ráðstefnu frá Íslandi: Dr. Kristinn Ólason, rektor í Skálholti og stundakennari við guðfræðideild HÍ og Jón Ásgeir Sigurvinsson, doktorsnemi. Höfðum við allir bæði gagn og gaman af þessari ráðstefnu í hinum vinalega heimabæ Wellhausens. Og það var einkar vel við hæfi að nafn hótelsins sem ráðstefnugestirnir dvöldu á skyldi hafa rætur í Gamla testamentinu, þ.e. Eden.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-11-05/a-radstefnu-i-heimabae-wellhausens/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli