gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Spurs fór á kostum og skoraði níu mörk! · Heim · Prófadagur »

Sl 23 í Gangs of New York

Gunnlaugur A. Jónsson @ 08.28 23/11/09

Á laugardagskvöldið horfðum við hjónin á kvikmyndina Gangs of New York (Martin Scorsese, 2002). Fannst mér það viðeigandi eftir að hafa heimsótt dóttur okkar, dótturdætur og tengdason  í borginni helgina áður. En þangað fluttust þau í haust.

Ég hafði nú séð kvikmyndina áður en naut hennar betur nú og er orðinn mjög áhugasamur um New York-borg eftir að hafa kynnst henni dálítið af sjónarhóli íbúa í borginni.

Ekki ætla ég að skrifa neina umsögn um myndina Gangs of New York en vildi halda til haga einu smávægilegu atriði sem örugglega hefur ekki vakið athygli margra við myndina. Í atriði þar sem fjórir menn eru hengdir opinberlega í myndinni kemur Sl 23 (”Drottinn er minn hirðir”) lítillega við sögu og þarf ekki að koma á óvart, svo mjög sem hefðin hefur tengt sálminn dauðanum.

Skilti á vegg sýnir tilvísun í sálminn sem jafnframt felur í sér túlkun í ljósi orða Jóhannesarguðspjalls (k. 10) um Jesú sem góða hirðinn. Þarna blasa sem sé við orðin: “God is my good sheperd.” Ekki er vafi á því að í hugum fjölmarga kristinna manna skapar Sl 23 sjálfkrafa hugrenningatengsl við “góða hirði” Nýja testamentisins. Ég hef því eiginlega verið að bíða eftir því að sjá þessum tveimur textum blandað saman og það gerðist sem sé þarna í hinni áhugaverðu kvikmynd Martin Scorsese.

Um notkun Sl 23 skrifaði ég grein í “Ritið” tímarit Hugvísindastofnunar fyrir fáeinum árum og flutti að auki fyrirlestur um efnið við Bar-Ilan háskólann í Ísrael í ársbyrjun 2008. Í umræðum sem urðu að loknum þeim fyrirlestri bent einn viðstaddra á að sálmur 23 nyti ekki jafn mikilla vinsælda meðal gyðinga og kristinna manna. Skýringarinnar er vafalaust að leita í þeim tengslum sem kristnir menn sjá við góða hirði Nýja testamentisins.

Annars hefur því verið haldið fram að Sl 23 hafi ekki öðlast sínar miklu vinsældir í Bandaríkjunum fyrr eftir  þrælastríðinu (1861-1865) lauk  (W. L. Holladay, 1993: The Psalms through Three Thousnand Years, s. 362). Og í því sambandi er rétt að minnast á að myndin Gangs of New York gerist einkum á árinu 1863, í miðju stríðinu. Samkvæmt Holladay hafði sálmurinn þá enn ekki öðlast sínar miklu vinsældir.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-11-23/sl-23-i-gangs-of-new-york/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli