gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Prófadagur · Heim · Líf og lög Selmu Kaldalóns – Afmælisdagskrá í Seltjarnarneskirkju á morgun, 27. des. kl. 15 »

Falleg hefð í Seltjarnarneskirkju – orgelleikur fram að miðnætti á Þorláksmessu

Gunnlaugur A. Jónsson @ 10.37 24/12/09

Friðrik Vignir Stefánsson, organistinn okkar í Seltjarnarneskirkju, hefur tekið með sér fallega hefð úr Grundarfjarðarkirkju. Þar hafði hann jafnan leikið jólalög milli kl. 23 og 24 að kvöldi Þorláksmessu við sívaxandi vinsældir. Sautján sinnum hafði hann leikið þar og í gærkvöldi lék hann í þriðja sinn í Seltjarnarneskirkju. Þetta voru því afmælistónleikar hjá Friðriki Stefáni, okkar fína organista.

Þetta er afar fallegur siður og einstaklega vel til þess fallinn að koma manni í rétta jólaskapið. Að ganga upp í kirkju síðla kvölds í kulda eins og var í gærkvöldi og koma inn í rökkvaða kirkjuna þar sem kertaljósin eru látin duga er einstaklega jólalegt og heillandi, mér hlýnaði enda fljótt eftir að hafa komið mér vel fyrir að næst aftasta bekk.

Orgelleikur Friðriks er mjög heillandi og lagaval hans sömuleiðis og Eygló Rúnarsdóttir, félagi í Kammerkór kirkjunnar, kemur honum til aðstoðar af og til og syngur gullfallega, m.a. Ave María, lag afa míns Sigvalda S. Kaldalóns.  Annað þekkt og ekki síður fallegt jólalag hans “Nóttin var sú ágæt ein” var líka á sínum stað og svo voru þarna flutt falleg og sígild útlend jólalög einnig.

Það fjölgar með hverju ári á þessum tónleikum en enn eiga margir eftir að uppgötva hvað þarna er mikið ævintýri á ferðinni. Jón Hákon Magnússon, félagi minn í sóknarnefndinni, var meðal þeirra sem létu sterk orð falla og gaf þakklæti sitt í skyn fyrir þessu fallegu upplifun, talaði um hvernig jólastemmningin hefði “hríslast um allan líkamann” undir leik Friðriks Stefáns og söng Eyglóar.

Fólk getur komið og farið meðan á dagskránni stendur en flestir kjósa að sitja mestallan tímann. Í fyrra missti ég af Ave Maria en lét það ekki henda mig nú og sat allt til loka. Besta þakkir fyrir frábæran inngang að jólahátíðinni.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-12-24/fallegt-hefd-i-seltjararneskirkju-orgelleikur-fram-ad-midnaetti-a-thorlaksmessu/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli