gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Líf og lög Selmu Kaldalóns – Afmælisdagskrá í Seltjarnarneskirkju á morgun, 27. des. kl. 15 · Heim · Forsetinn hetja og Eva Joly (Holy) heilög í bloggheimum »

Frestun forseta hefur gildi ein og sér

Gunnlaugur A. Jónsson @ 12.22 3/1/10

Það að forseti skuli ekki hafa umsvifalaust skrifað undir lögin um Icesave-samningana,; nauðasamningana sem margir kalla svo, hefur gildi í sjálfu sér. Það hefur þegar sýnt sig að mikið er fjallað um málið í fjölmiðlum erlendis og þar vottar a.m.k. fyrir því að leitast sé við að skilja hvernig á óánægju íslensks almennings með samningana standi.

Íslensk stjórnvöld hafa verið svo upptekin af því að koma þessum samningum í gegnum þingið að afar lítið hefur farið fyrir því að máli þjóðarinnar sé talað á erlendum vettvangi. Varla hefur heyrst hósti eða stuna frá íslenskum  ráðamönnum erlendis.

Mörgum finnst sem í milliríkjadeilu Íslendinga annars vegar og gömlu nýlendaveldanna Breta og Hollendinga hins vegar hafi íslensk stjórnvöld því birst sem talsmenn andstæðinganna. Stjórnvöld hafi stöðugt verið að verja breytingatillögur nýlenduþjóðanna gömlu við fyrirvarana sem samþykktir voru af Alþingi í haust. Bara það að stór hluti Íslendinga upplifi þetta svo er nógu alvarlegt í sjálfu sér. Og raunar tel ég þá upplifun hreint ekki óeðlilega.

Hver sem niðurstaða forseta verður að lokum þá er ég sannfærður um að frestun hans á undirstrift hefur haft ákveðna þýðingu. Hér á landi er ótrúlega stór hópur fólks sem talar eins og Íslendingar séu valdir að heimskreppunni og láta eins og ekki sé nein kreppa annars staðar í veröldinni.

Ég var sem sé meðal þeirra sem glöddust yfir því að forsetinn skyldi ekki skrifa umsvifalaust undir samninganna í þeirri nýju mynd sem Alþingi samþykkti þá með litlum mun milli jóla og nýárs.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2010-01-03/frestun-forseta-hefur-gildi-ein-og-ser/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli