gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Frestun forseta hefur gildi ein og sér · Heim · Enn sigrar Ísland á leiðinni á EM »

Forsetinn hetja og Eva Joly (Holy) heilög í bloggheimum

Gunnlaugur A. Jónsson @ 01.59 8/1/10

Beygð og brotin þjóð þarf á því að halda að einhver telji kjark í hana. “Það er enginn að telja kjark í þjóðina,”  sagði Davíð Oddsson á sínum tíma og með talsverðum rétti. Niðurlægð íslensk þjóð hefur beðið eftir leiðtoga. Segja má að hann hafi birst úr  óvæntri átt. Ólafur Ragnar forseti hefur í afar þröngri stöðu, úthrópaður sem “klappstýra útrásarinnar”, náð vopnum sínum svo um munar og Eva Joly er hyllt sem hetja og ekki bara sem hetja heldur sem heilög kona.

Þannig er staðan eftir að maður hefur gluggað í fjölmiðla dagsins og þá ekki síst umræðuna á blogginu. Ólafur Ragnar hefur þótt standa sig afar vel í “hard talk” á BBC og svo er að sjá sem umfjöllun fjölmiðla erlendis sé víða ótrúlega jákvæð í garð Íslendinga, síst þó í Skandinavíu og allra síst í Danmörku. En ríkisstjórnin virðist hafa lesið stöðuna vitlaust og fréttamannafundur forsætis- og fjármálaráðherra var hreint  ”flopp” frá sjónarmiði almannatengsla.

Sjálfur var ég á því að forsetinn hefði gert hárrétt í því að vísa Icesave-lögunum til þjóðarinnar, sbr. fyrri færslu mína, þó að ekki nema væri til að tryggja að nauðung Íslands fengi umræður á alþjóðavettvangi. Það hefur vissulega gengið eftir. Og Eva Joly gengur þar fram fyrir skjöldu enn á ný þannig að hún er nú nánast komin í heilagra manna tölu á Íslandi, eins og ein bloggfærslan við frétt Mbl, sem vísað er til hér að neðan, ber með sér.

Það er athyglisvert að verða þessa var í lokatörn yfirferðar prófúrlausna í ritskýringu spádómsbókar Jesaja þar sem heilagleikahugtakið kemur við sögu í einni spurningunni og huggunarspámaðurinn svokallaði kemur og talar kjark í þjóð sem er í útlegð og í aðstæðum sem virðast alveg vonlausar. “Huggið, huggið lýð minn,” eru upphafsorð þess hluta Jesajaritsins sem eignuð eru nafnlausum spámanni útlegðatíma Gyðinga í Babýlon um 540 f. kr. (Jes 40.1).

Sjá: http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/01/07/joly_hardord_i_gard_hollendinga/

url: http://gunnlaugur.annall.is/2010-01-08/forsetinn-hetja-og-eva-joly-heilog-i-bloggheimum/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli