gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Enn sigrar Ísland á leiðinni á EM · Heim · EM-handboltinn tekinn fram yfir DEC-kvöld »

Góð kynning á gyðingdómi úr forgarði heiðingjanna

Gunnlaugur A. Jónsson @ 16.09 19/1/10

Undanfarið hef ég verið að lesa afar áhugaverða bók. Það eru örugglega bæði ár og dagur síðan bók á sviði trúarbragðafræða hefur kveikt jafnrækilega í mér og þessi. Um er að ræða bókina Common Prayers eftir hinn kunna guðfræðiprófessor Harvey Cox (f. 1929), sem öðlast heimsfrægð þegar árið 1965 með bók sinni Secular City.

Bókin sem hér um ræðir fjallar um gyðingdóm af sjónarhóli kristins guðfræðings sem hefur kynnst gyðingdómi í návígi eða “úr forgarði heiðingjanna” eins og hann orðar það. Harvey Cox kvæntist nefnilega konu sem er Gyðingur (þau höfðu bæði verið gift áður) og þau tóku þá ákvörðun að sonur þeirra skyldi alinn upp í gyðinlegri trú. Þau gerðu engar sérstakar málamiðlanir með ólíkar trúarskoðanir sínar. Þau ákvaðu þvert á móti að halda við sína trú hvort um sig en leitast við að virða trú hvors annars og læra sem mest um um þau systurtrúarbrögð sem gyðingdómur og kristni óneitanlega eru.

Það hafa þau svo sannarlega gert ef marka má bók Harvey Cox. Afar læsileg bók sem sýnir að hann hefur mjög rækilega kynnt sér gyðingdóm og að verulegu leyti lifað hann einnig og samúð hans með og hrifing af mörgu í gyðingdómi leynir sér ekki. Mér finnst það auka mjög á læsleika bókarinnar hve persónuleg hún er. Þá gefur það bókinni líka gildi að höfundurinn er stöðugt að bera saman hátíðir og trúarskoðanir gyðingdóms og kristni.

Harvey Cox hefur ekki kynnst viðfangsefninu af fræðibókum fyrst og fremst heldur eins nærri og utanaðkomandi aðili getur komist eða “úr forgarði heiðingjanna” eins og hann orðar þar með vísun í muserti Gyðinga.

Bókin er byggð þannig upp að fjallað er um gyðingdóm út frá helstu trúarhátíðunum og þannig fær lesandinn vegferð gegnum almanak gyðingdóms, eins árs tímabil. Cox segir raunar að gyðingdómur sé mikið frekur trúarbrögð tímans heldur en þau séu bundin ákveðnum stað. Fremur trúarbrögð stunda en staðar, gætum við sagt.

Ekki er ótrúlegt að ég eigi eftir að segja frá ýmsu úr þessari bók síðar hér á annálnum, en lýk með því að nefna að Cox vitnar m.a. í Karl Bart, einhvern kunnasta guðfræðing 20. aldar, og segir að við skyldum minnast þess að Orðið varð ekki bara hold að kristnum skilningi, það varð “gyðinglegt” hold því að vissulega var Jesús frá Nasaret Gyðingur.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2010-01-19/god-kynning-a-gydingdomi-ur-forgardi-heidingjanna/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli