gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Góð kynning á gyðingdómi úr forgarði heiðingjanna · Heim · “Íslendingar neita að mæta í eigin jarðarför” »

EM-handboltinn tekinn fram yfir DEC-kvöld

Gunnlaugur A. Jónsson @ 14.04 20/1/10

Fastur liður á þriðjudagskvöldum hjá mér er kvikmyndasýning í góðra vina hópi í félagsskapnum Deus ex cinema (Dec), sem stofnaður var í júlí árið 2000. Síðan þá höfum við horft saman á yfir 700 myndir í þeim tilgangi að skoða þær einkum af sjónarhóli trúar og guðfræði. Í gærkvöldi mætti ég ekki. Ástæðan var Evrópumótið í handhnattleik og þar voru Íslendingar að spila sinn fyrsta leik, eins og alþjóð veit.

Það voru fleiri félagsmenn sem boðuðu forföll vegna handboltans, m.a. Leifur Breiðfjörð myndlistarmaðurinn kunni og dr. Gunnar J. Gunnarsson dósent. Einhver hafði nú á orði að íþróttir væru trúarbrögð og sjálfur nefndi ég í hálfkæringi hvort ekki mætti hafa handboltasýningu sem hluta af sýningu Dec. Ekki varð það nú niðurstaðan, heldur sat ég einn heima og horfði á leikinn, skráði vana mínum trúar öll mörk og aðra statistik, en þessi iðja mín er nánast orðin að ritúali.

Eiginkonan var raunar heima en hefur ekki áhuga á þessu sporti en skynjaði víst í lokin að úrslitin höfðu ekki verið mér að skapi. Hvað um það þá var leikur íslenska liðsins á köflum frábær, einkum í fyrri hálfleik þar sem sterk vörn og glæsileg markvarsla lögðu grunninn að hverju hraðupphlaupinu á fætur öðru. 15-11 forysta í hálfleik sem hefði svo auðveldlega getað verið enn meiri og enn var fjögurra marka forysta þegar fimm mínútur voru eftir, en íslenska liðinu gekk afleitlega á lokamínútunum og niðurstaðan varð jafntefli 29-29. Ekki má gleyma að Serbar eru með frábært lið og mikil óánægju með jafntefli gegn svo sterkri þjóð segir heilmikið um styrkleika íslenska liðsins.

Margt mjög jákvætt í leik íslenska liðsins, markvarslan í fyrrihálfleik, einnig varnarleikurinn  og hraðupphlaupin með Guðjón Val í aðalhlutverki og svo glæsilegur leikur Arnórs Atlasonar í seinni hálfleik þar sem hann hélt íslenska liðinu á floti á löngum köflum. Næstu mótherjar eru Austurríkismenn og þann leik eiga og verða Íslendingar að vinna.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2010-01-20/em-handboltinn-tekinn-fram-yfir-dec-kvold/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli