gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« EM-handboltinn tekinn fram yfir DEC-kvöld · Heim · Nú lágu Danir í því -Frækinn sigur á EM í handbolta »

“Íslendingar neita að mæta í eigin jarðarför”

Gunnlaugur A. Jónsson @ 10.35 23/1/10

Einar Már rithöfundur skrifar hressilega grein í Sunnudagsmoggann (24. 1 2010) sem barst hér inn um lúguna árla morguns. Yfirskrift þessarar færslu minnar er sótt í hina læsilegu grein Einars Más og hann sækir tilvitnunina aftur í afrískt dagblað sem var að fjalla um ástandið á Íslandi. Fyrir fjölmiðlafíkil eins og mig myndi mikið vanta hefði ég ekki Morgunblaðið og Sunnudagsmoggann. Fréttablaðið gaf mér lítið í morgun. Það er hins vegar margt áhugavert og læsilegt  í Sunnudagsmogganum og merkti ég við nokkrar setningar sem vöktu athygli mína.

Þar má fyrsta telja fyrirsögnina á grein Einars Más “Þegar mafían verður að mæðrastyrksnefnd” í grein sem gagnrýnir starf Alþjóðagjaldeyrissjóðis og tekur Haítí sem dæmi því til sannindamerkis. Sannarlega orðheppinn rithöfundur, Einar Már.

Skákin hefur löngum höfðað til mín þó fjarri sé að ég geti talið mig skákmann, en fréttir af þeim vettvangi hafa yfirleitt vakið athygli mína, augljóslega arfur frá afreksdögum Friðriks Ólafssonar. En grein Kasparovs um innrás tölvunnar í skákheiminn nennti ég ekki að lesa. Ég hallast nefnilega að því að tölvan sé að spilla fyrir skákinni, eða eins og segir í frétt neðar á sömu síðu um “Útungunarvél undrabarnanna”: … “Hvers vegna að sóa tíma í tilraunir með nýjar og skapandi hugmyndir fyrst við vitum nú þegar hvað virkar?” (s. 4).

Myndasyrpa af handboltalandsliðinu á tveimur síðum fannst mér gott efni (s. 16-17).  “Sumarbúðastemmning á Marroti-hótelinu” var fyrirsögnin og  minnir á landsleikinn við Dani í kvöld á EM í Austurríki sem þjóðin bíður eftir og er ég sannarlega í þeim hópi. Og aftar í blaðinu má lesa þetta komment um Dani þar sem sá sem á athugasemdina er þó ekki með handboltamenn þeirra í huga: “En ég þekki Danina. Þeir vita ekki hvað heiður er. Fyrir þeim eru þetta aðeins peningar, peningar, peningar … þeir geta átt sína peninga sjálfir” (s. 49). Og hver skyldi nú hafa sagt þetta? Jú, mikið rétt. Það var enginn annar en Nóbelsskálið Halldór Laxness.

Og vitaskuld las ég viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Jón Ársæl, þann snjalla og vinsæla sjónvarpsmann. Eftir situr tilfinningin að Jón Ársæll sé betri í að taka viðtöl en að sitja fyrir svörum. En minnistætt úr viðtalinu var mér einkum þetta: “Ég hef mikinn áhuga á fólki og er sammála franksa uppeldisfræðingnum Rousseau sem sagði að maðurinn væri í innsta eðli sínu góður” (s. 24). Gott hjá Jóni Ársæli og víst er um það að honum tekst í margverðlaunuðum sjónvarðpsþáttum sínum að láta flest fólk líta út sem gott fólk.

Styrmir Gunnarsson skrifar pistil af  “Innlendum vettvangi” og ekki kemur neinum á óvart að hann er ekki hrifinn af ríkisstjórninni. Hann segir helsta afrek hennar sé að friður ríki á atvinnumarkaði vegna þess að ríkisstjórnin á “hauka í horni innan verkalýðshreyfingarinnar.”  En bætir svo við síðar í pistlinum: “Kannski finnst einhverjum kaldhæðnislegt að það eina sem vinstriflokkarnir geti komið sér saman um, sé mikil kjaraskerðing” (s. 26). Og ekki þarf lengi að lesa í Reykjavíkurbréfinu til að þekkja þar handbragð Davíðs Oddssonar og kaldhæðni: “Lausleg talning bendir til að heimsendir hafi orðið 14 sinnum á Íslandi á síðasta ári vegna Icesave samkvæmt áreiðanlegum heimildum Steingríms” (s. 28).

Áhugavert fannst mér og viðtalið við nýjan rektor HR. Ari Kristinn Jónsson heitir hann og á m.a. að baki tíu ára starfsferil hjá NASA. “Háskólar snúast að öllu leyti um fólk” er ágæt fyrirsögn á því viðtali en þar merkti ég við þessa staðhæfingu hans: “Það er vel þekkt um allan heim að menntunarstig segir til um lífsgæði” og hann bætir við að þar sem “þar sem auðlindir og hugvit fara saman, þar sjáum við bestu lífsgæðin” (s. 31). Samkvæmt því ætti íslensk þjóð ekki að þurfa að kvíða framtíðinni svo mjög.

Ég las mér líka til fróðleiks ágætar greinar um “Ógæfu Haítis” og ferð íslenskra körfuboltamanna til Austur-Þýskalands árið 1959, alls voru það nærri tvær opnur. Sultugerð Guðrúnar Ögmundsdóttur, fyrrv þingkonu, fannst mér sömuleiðis býsna áhugavert efni.

Þá fékk ég enn eina vísbendinguna um að bók Jóns Kalmans Stefánssonar, Harmur englanna þarf ég að eignast og lesa. Sigríður Björnsdóttir er meðal þeirra sem hafa hrifist af þeirri bók. “… oft var eins og krumla hefði gripið um hjartað” (s. 53). Gott ef það var ekki Kolbrún bókmenntagúru sem sagði þetta bestu skáldsögu ársins og hneyksli að hún skyldi ekki hafa verið tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Og loks var það verðlaunaljóð Gerðar Kristnýjar “Strandir” sem var sigurljóðið í ljóðasamkeppninni Ljóðstafur Jóns úr Vör. Bráðsmellið og afar vel heppnað ljóð:

Að vetri

er aðeins fært hugleiðina

Sængurhvít sveitin

breiðir úr sér

innan við augnlokin

Bjarndýr snuddar í snjó

nær síðasta jaka

til baka.

—Flott ljóð og ljóðlínan  ”aðeins fært hugleiðina” er eitthvað sem mun festast í huga mér.

Mér finnst sem þessari morgunstund með Sunnudagsmogganum hafi verið vel varið. Og ekki varðar mig neitt um óbeinar hvatningar þeirra fjölmörgu,  sem segjast hróðugir hafa sagt upp Morgunblaðinu. Mér finnst blaðið hressilegt, með bestu íþróttafréttirnar og minningargreinarnar eru á sínum stað. E.t.v. dálítið meira flokksblað en það skiptir mig ekki máli.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2010-01-23/islendingar-neita-ad-maeta-i-eigin-jardarfor/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Hrannar Baldursson @ 23/1/2010 11.19

Flott samantekt á Mogganum, og ég er sammála þér með hina færu hugleið Gerðar.


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli