gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« “Íslendingar neita að mæta í eigin jarðarför” · Heim · Ester í stað Esju »

Nú lágu Danir í því -Frækinn sigur á EM í handbolta

Gunnlaugur A. Jónsson @ 23.44 23/1/10

Sigur íslenska handboltalandsliðsins í kvöld á Evrópumeisturum Dana var ótrúlega glæsilegur. Og að þessu sinni var seinni hálfleikurinn enn betri en sá fyrri. Lokatölurnar 27-22 þýða að Íslendingar fara með sigur af hólmi úr sínum riðli. Ég er á því að það hafa skipt mjög miklu máli að fá nýjan og óþreytann mann inn í liðið. Aron Pálmarsson, aðeins 19 ára, sýndi mjög góðan leik, var leynivopn liðsins,  skoraði 5 góð mörk og tók yfir hlutverk leikstjórnandans og skilaði því með mikilli prýði.

Guðmundur þjálfari hafði fram að þessu notað nánast alveg óbreytt lið í sóknarleiknum og bæði var hætta á að menn væru farnir að þreytast og eins og keppinautarnir ættu auðvelt með að stúdera lið sem spilaði á svo fáum mönnum. Þess vegna var breyting mikilvæg og eins hafði Snorri ekki náð sínu besta sem leikstjórnandi.

Annars var það líklega varnarleikurinn sem mestu skipti. Nú var íslenska vörnin eins og hún varð best á Olympíuleikunum í Beijing og þá fylgdi markvarslan með, Björgvin Páll með hreint frábæran leik og mun betri en dönsku markverðirnir. Var enda verðskuldað kosinn maður leiksins, með 18 skot varin, skv. minni talningu.

Hvergi var veikan hlekk að finna í íslenska liðinu. Það náði glæsilegri forystu í byrjun 7-2, en þá kom á skömmum tíma ótrúlegur viðsnúningur, Danir skoruðu 8 mörk í röð og komust yfir 7-10. Á þeim tíma var útliðið ekki sérlega bjart. En íslenska liðið sýndi þá hversu öflugt það er og breytti stöðunni á furðu skömmum tíma sér í hag í 13-11 og hafði 15-13 yfir í hálfleik. Mestur varð munurinn svo í seinni hálfleik 27-20 og þá var ljóst að útilokað væri að liðið gæti misst forystuna niður enda allt annar bragur á liðinu nú þegar það var að mæta sínum sterkasta mótherja til þessa og einu alsterkasta liði mótsins.

Guðjón Valur var að venju gríðarlega öflugur og gerði 6 mörk, Alexander skoraði 4 mörk, þar af tvö ótrúlega glæsileg og Róbert var einnig með 4 mörk. Ólafur Stefánsson hafði óvenjulega hægt um sig og skoraði aðeins 1 mark en var sannarlega mikilvægur hlekkur í liðinu og ekki er vafi á því að hann á eftir að reynast liðinu drjúgur í næstu leikjum. Og það segir sitt um styrkleika liðsins að vinna svona afgerandi sigur þegar fyrirliðinn og aðalmaður liðsins á liðnum árum lét lítið til sín taka í markaskoruninni. En það má aldrei gleymast að slíkrar virðingar nýtur Ólafur í handboltaheiminum að allar varnir hafa góðar gætur á honum að nærvera hans ein getur opnað fyrir aðra leikmenn.

Nú er framhaldið spennandi, áframhaldandi handboltaveisla. Á mánudag eru mótherjarnir landsliðið Króatíu sem um árabil hefur verið eitt af þremur bestu liðum heimsins og orðið heimsmeistarar oftar en einu sinni.

Ekki er vafi á því að þessi sigur léttir lund hjá mörgum Íslendingnum og er hreinlega góður fyrir þjóðarsálina á tímum þar sem íslensk þjóð hefur haft yfir litlu að gleðjast og barlómurinn verið allsráðandi.

Og það er líka alltaf sérstök tilfinning þegar sigur vinnst á frændum vorum Dönum. Glæsilegur leikur og frábær skemmtun.  Íslenska handboltalandsliðið sýndi það enn á ný að það getur verið í allra fremstu röð. Á góðum degi geta “strákarnir okkar” unnið hvaða landslið sem er.

Og hér er slóðin á umfjöllun Politiken um leikinn: http://politiken.dk/sport/haandbold/article886471.ece

Og hér er slóðin á umfjöllun BT: http://www.sporten.dk/handbold/em-2010/dansk-nedtur-mod-island

Og loks er hér Ekstra bladet: http://ekstrabladet.dk/sport/haandbold/em/article1287878.ece

Danir eru bjartsýnir með framhaldið þrátt fyrir tapið, þeir hrósa Íslendingum, segja þá hafa gjörþekkt leik danska liðsins og verið mun betra liðið. En sænsku dómararnir eru skammaðir.  Danir  mæta Rússum á mánudagskvöld en Íslendingar leika við Króatíu kl. 16 á mánudag. Króatar eru efstir í milliriðlinum með 4 stig en Íslendingar í öðru sæti með 3 stig. Spennandi keppni framundan þar sem okkar menn mæta Rússum á þriðjudag og Norðmönnum á fimmtudag.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2010-01-23/nu-lagu-danir-i-thvi-fraekinn-sigur-a-em-i-handbolta/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli