gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Nú lágu Danir í því -Frækinn sigur á EM í handbolta · Heim · Stig gegn Króatíu færir okkar menn skrefi nær undanúrslitum »

Ester í stað Esju

Gunnlaugur A. Jónsson @ 11.04 25/1/10

Þessa stundina er skyggnið út um gluggann hér í Bollagörðunum ekki meira en svo að Esjan sést ekki. Þangað verð ég því bara að fara “hugleiðina” eins og Gerður Kristný orðar það í snjöllu ljóði sínu “Strandir” sem ég minntist á í næstsíðustu færslu minni. En nú er það raunar drottningin Ester sem á hug minn allan. Þannig að Ester kemur í stað Esju.

Esterarbók er ekki meðal þeirra bóka Gamla testamentisins sem ég hef haft mestan áhuga á til þessa. Hið gangstæða er mun nær sanni. En nú hefur ég ákveðið að taka Ester í sátt og mér finnst sú staðreynd að Guð er aldrei nefndur á nafn í bókinni gera hana býsna girnilega til skoðunar í námskeiði því sem ég kenni núna á vormisseri um guðfræði Gamla testamentisins. Hvaða erindi á bók sem ekki minnist á Guð inn í guðfræði Gamla testamentisins? Þeirri spurningu ætla ég ekki að svara hér heldur í kennslustund í lok vikunnar.

Ester á sér talsvert mikla áhrifasögu í bókmenntum og listum og helför Gyðinga varð til þess að beina athyglinni að henni í auknum mæli, því að Esterarbók greinir frá áformum um að útrýma Gyðingum á tímum Persaríkis hins forna. Bókin er uppistaðan í Púrím-hátíð Gyðinga og höfðar því meira til þeirra en okkar kristinna manna. Ein af skýringunum sem nefndar hafa verið á því hvers vegna Guð sé ekki nefndur á nafn í Esterarbók er einmitt sú að það hafi ekki þótt við hæfi að tengja hann Púrím-hátíðinni þar sem vín var gjarnan haft um hönd. Ekki tel ég það þó sennilegustu skýringuna, en fer ekki frekar út í þá sálma hér.

Aldrei er vitnað í Esterarbók í Nýja testamentinu og ekkert handrit af henni fannst meðal Qumran-handritanna (einhver merkasti handritafundur 20. aldarinnar, við Dauðahafið 1947 og næstu ár á eftir). Hvað um það bókin er um margt mjög áhugaverð.

Ég veit þó að upp úr kl. 14 í dag verð ég tekinn að ókyrrast og hugur minn að beinast í aðra átt því að kl. 15 hefst bein útsending frá landsleik Íslands og Króatíu á EM í handbolta í Vín.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2010-01-25/ester-i-stad-esju/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Ólöf I. Davíðsdóttir @ 25/1/2010 20.29

Í haust las ég úr bók Timothy K. Beal, “The Book of Hiding: Gender, Ethnicity, Annihilation and Esther” í Gamla Testamentisnámskeiði. Mér fannst nálgun Beal mjög áhugaverð varðandi útrýmingu og Purim hátíðina. Þetta verður örugglega skemmtilegt hjá ykkur.

Gunnlaugur A. Jónsson @ 25/1/2010 20.54

Þakka kveðjuna og ábendinguna. Kannast við skrif Beals um eþssi efni. Já, þetta er spennandi viðfangsefni, finnst mér.


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli