gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar
  • Annálar

  • Tenglar

  • Eldri færslur

  • Leit

Þýðingarnefnd fagnar verklokum

08.53 21/6/06 + 2 ath.

Þýðingarnefnd Gamla testamentisins kom saman á Hóteli Holti í hádeginu í gær til að fagna verklokum í biblíuþýðingarstarfinu. Við erum nú búin að skila öllum texta af okkur til útgefanda en ýmsir óvæntir erfiðleikar komu upp á lokastigi vinnunnar sem töfðu verkið nokkuð. Allir nefndarmenn voru mættir, þ.e. dr. Guðrún Kvaran, dr. Gunnar Kristjánsson, sr. Sigurður Pálsson og sá er þetta ritaði. Áfram…

Um hebreska ljóðagerð – meginverkefni sumarsins

08.34 21/6/06

Ekki er meiningin að liggja í leti í sumar. Í gærmorgun hittumst við Hjörtur Pálsson, bókmenntafræðingur og guðfræðinemi, á skrifstofu minni uppi í Háskóla til skrafs og ráðagerða. Við eigum sameiginlegt hugðarefni: Hebreskt kveðskaparform. Áfram…

Hálfnað er verk þá lokið er!

07.44 19/5/06 + 2 ath.

Að undanförnu hefur mér stundum komið í hug útúrsnúningur úr máltækinu kunna “Hálfnað er verk þá hafið er.” Á þingi sem haldið var á sínum tíma þar sem lagt var á ráðin um ritun Kristnisögu Íslands sneri dr. Gunnar Karlsson prófessor út úr þessu máltæki og sagði í staðinn: “Hálfnað er verk þá lokið er.” Með þeim orðum vildi Gunnar minna á að það er oft stórlega vanmetið hver drjúgur tími fer í ýmis konar frágangsvinnu þegar lokið hefur verið við að skrifa ritverk. Áfram…

Hundrað ár frá fæðingu Dietrich Bonhoeffers

17.29 4/2/06

Undanfarna daga hef ég verið að lesa eitt og annað um eða eftir þýska guðfræðinginn Dietrich Bonhoeffer vegna vitneskjunnar um að í dag, 4. febrúar, eru eitt hundrað ár liðin frá fæðingu hans. Það vill svo til að eitthvað það fyrsta sem ég las á sviði guðfræðinnar voru bréf Bonhoeffers úr fangelsi (Letters and Papers from Prison. 1. útg. 1953). Það gerði ég sama ár og ég hóf nám í guðfræði­deildinni.

Áfram…

Einar H. Kvaran og nýguðfræðin

09.02 2/12/05

Einn þeirra leikmanna sem komu verulega við sögu í deilunum eftir aldamótin 1900 um hin nýju viðhorf á guðfræðisviðinu á Íslandi (biblíugagnrýnin, nýja guðfræðin, frjálslynda guðfræðin) var Einar H. Kvaran rithöfundur. Í tengslum við rannsóknarverkefni mitt í Kaupmannahöfn held ég hér til haga örfáum minnispunktum um Einar en ætlunin er að fjalla um hann í stuttum kafla í því riti sem ég vinn nú að um þetta efni. Áfram…

Heim á hugvísindaþing

09.37 16/11/05

Á morgun skrepp ég heim til Íslands til að taka þátt í hugvísindaþingi sem haldið verður á föstudaginn og stendur frá kl. 8:30-17:30. Sjálfur mun ég taka þátt í málstofunni “Þjóðkirkjan og staða hennar fyrr og nú” í sotfu 111 frá kl. 13:30-15:30. Þar mun ég tala um efnið “Biblíugagnrýnin og þjóðkirkjan” sem er angi af rannsóknarverkefni mínu hér í Kaupmannahöfn. Áfram…

Rannsóknarverkefni mitt í Kaupmannahöfn

10.45 7/11/05

Rannsóknaverkefni mitt hér í fræðimannsíbúðinni í Kaupmannahöfn felst í því að kanna upphaf biblíugagnrýninnar svokölluðu á Íslandi og áhrif hennar á árunum 1890-1920. Áherslan hvílir á hinum skandinavíska bakgrunni umræðunnar. Áfram…

Að sofna á hebresku

12.44 27/10/05 + 4 ath.

Upp á síðkastið hef ég lesið hebresku daglega, nokkuð sem gamlatestamentisfræðingar ættu alltaf að gera, alla daga ársins. En það er jafnframt ákveðin nýbreytni í lestri mínum. Ég keypti úti í Cambridge bráðskemmtilega kennslubók í hebresku ‘Learn Biblical Hebrew – 2nd Edition, with Audio CD-Rom -’ eftir John H. Dobson sem er víðfrægur fyrir árangursríkar aðferðir sínar við hebreskukennslu og raunar grískukennslu einnig. Áfram…

Kvatt með kökum í Tyndale House

12.25 24/10/05

Dvöl minni á Tyndale House í Cambridge lauk nú fyrir helgina. Það er hefð fyrir því að þeir fræðimenn sem hverfa á braut þaðan eftir að hafa dvalist þar nokkrar vikur hið minnsta leggja til bakkelse með kaffinu (og tei) síðasta daginn og þiggja að launum kveðjuræðu forstöðumanns. Þetta gerði ég eins og í fyrrahaust. Áfram…

Matthíasarþingi frestað um ár

00.48 1/10/05

Málþingi í minningu Matthíasar Jochumssonar (1835-1920) sem halda átti á Akureyri og í Reykjavík dagana 11.-12. nóvember næstkomandi hefur verið frestað um ár. Þingið átti ekki síst að tengjast útkomu bókar Þórrunar Valdimarsdóttur sagnfræðings um æfi Matthíasar. Nú mun ljóst orðið að bókin verður ekki komin út á þessum tíma og hefur því verið ákveðið að fresta þinginu um heilt ár. Áfram…

Nostrað við Saltarann

07.51 11/8/05

Þó að þýðingu Gamla testamentisins hafi mátt heita lokið fyrir nokkru sýnir það sig að öll frágangsvinna er afskaplega drjúg og koma í hugann orð Gunnars Karlssonar prófessors: ‘Hálfnað er verk þá lokið er!’ Síðastliðinn mánudag lagðist þýðingarnefnd Gamla testamentisins eina ferðina enn yfir Saltarann. Ástæðan var sú að Sigurbjörn Einarsson biskup hafði tekið sér fyrir hendur að lesa yfir hina nýju gerð sálmanna og í framhaldi af því sent inn talsvert ítarlegar athugasemdir og tillögur um leiðréttingar. Áfram…

Björgun úr sjávarháska í biblíulegu ljósi

23.28 10/8/05

Flest ykkar kannast vafalaust við frásögnina eða helgisöguna um tilurð Strandarkirkju, hinnar fyrstu kirkju sem reist var á þessum stað. — Þannig byrjaði ég erindi það sem ég flutti á kirkjudegi í Strandarkirkju s.l. sunnudag, 7. ágúst. Framhald erindis fer hér á eftir:

Raunar er frásögnin til í nokkrum gerðum en sameiginlegt er þeim öllum að sjómenn hafi verið á leið til Íslands en lent í hafvillum og sjávarháska úti fyrir hafnlausri strönd suðurlandsins og hafi þeir þá unnið Guði sínum það heit að reisa kirkju þar sem þá bæri að landi og nota til þess húsgerðarvið þann sem var farmur skipsins. Áfram…

Klappað og klárt í Cambridge

11.04 9/8/05

Allt er nú klappað og klárt varðandi dvöl mína í Cambridge í haust, annað haustið í röð. Ég er búinn að ganga frá leigu á sömu íbúð og í fyrra, þ.e. á Midsummer Court nr. 34. Þó að það húsnæði sé býsna dýrt og auk þess nokkuð langt frá vinnustað mínum, Tyndale House, þá lét ég slag standa þegar í ljós kom að mér stóð þetta húsnæði til boða á nýjan leik. Ég er með bókaða vinnuaðstöðu á Tyndale House frá 1. september og út októbermánuð og á pantað flugfar utan 2. september. Áfram…

Gengið með Saltarann í sólinni

09.21 22/7/05 + 2 ath.

Síðastliðinn sunnudag flutti ég erindi um Bænamál Saltarans á Skálholtshátíð. Erindið hafði ég að langmestu leyti samið á daglegum göngum mínum í sumarfríi á Krít, yfirleitt í steikjandi hita. Ég var með lítið Nýja testamenti og sálmana meðferðis á Krít og notaði gönguferðirnar til að hugleiða efnið, stoppaði inn á milli til að punkta hjá mér hugmyndir og niðurstöður. Yfirleitt gekk ég í um tíu kílómetra á dag. Ég hef haldið þessum gönguferðum áfram eftir að heim var komið og að undanförnu hef ég haft meðferðis lítinn hebresk-þýskan vasasaltara sem sr. Sigurður Sigurðarson vígslubiskup gaf mér í lok Skálholtshátíðar. Mér þótti vænt um þá gjöf. Áfram…

Fyrirlestrar framundan

23.21 23/6/05

Í gær þekktist ég boð um að flytja tvo fyrirlestra um sálma Matthíasar Jochumssonar á málþingum á Akureyri og í Reykjavík 11. og 12. nóvember næstkomandi. Eftir að hafa tekið mér sólarhrings umhugsunarfrest ákvað ég að þekkjast boðið. Ástæðan til þess að ég þurfti að hugsa mig um var sú að ég verð staddur í Kaupmannahöfn, í fræðimannsíbúð þeirri sem kennd er við Hús Jóns Sigurðssonar, í nóvember og desember og verð því að gera sérstaka ferð heim. En mér fannst tilboðið spennandi og falla að rannsóknaverkefni mínu um upphaf sögulegra biblíurannsókna á Íslandi svo að ég ákvað að slá til. Áfram…

« Fyrri færslur · Næstu færslur »

© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli